Jólagjöf Robbie Williams

Robbie Williams og Jamie Cullum eru í jólastuði.
Robbie Williams og Jamie Cullum eru í jólastuði. Skjáskot: youtube.

Robbie Williams lætur sjaldan slá sig út af laginu. Hann hefur nú tilkynnt um útgáfu jólaplötu þar sem hann flytur helstu poppsmelli jólahátíðarinnar. Þar má til dæmis nefna lagið „Merry Xmas Everybody“ sem hljómsveitin Slade gerði ódauðlegt um árið. Lagið er ofarlega á tónlistarlistum um víða veröld í aðdraganda jóla. Robbie ræðst því ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.

Píanóleikarinn og söngvarinn Jamie Cullum veitir Robbie fulltingi í laginu sem kemur út á plötunni „The Christmas Present“ en platan er væntanleg 22. nóvember.

Robbie hefur ekki áður sent frá sér jólaplötu en aðdáendur hans hafa lengi kallað eftir einni slíkri. Fyrri helmingur plötunnar verður tileinkaður klassískum jólalögum en sá seinni með nýrri lagasmíðum. 

Rod Stewart, Bryan Adams og Jamie Cullum koma fram á plötunni með Robbie Williams og einnig boxarinn Tyson Fury sem ku sýna leynda sönghæfileika.

Til að fylgja plötunni eftir verður Robbie Williams með jólatónleika á Wembley 16. desember.

mbl.is