„Samkynhneigð var ekki til í Búðardal“

Guðmundur Kári Þorgrímsson.
Guðmundur Kári Þorgrímsson. K100

Fyrir sléttum fjórum árum, árið 2015, birti Guðmundur Kári Þorgrímsson, þá sextán ára, myndband á Facebook þar sem hann kom út úr skápnum. Þar hvatti hann alla sem væru óvissir til að ræða við sig þar sem hann vildi miðla af reynslu sinni.

Fjórum árum síðar segir Guðmundur Kári að myndbandið eigi ennþá vel við.
„Við gerum okkur stundum ekki grein fyrir hvað við getum haft góð og hvetjandi áhrif á aðra," segir hann í viðtali við þá Loga og Sigga í síðdegisþætti K100. „Þegar ég kom út úr skápnum var ég fyrst og fremst að gera það fyrir sjálfan mig. Það sem ég vissi ekki var að þetta myndi hafa gríðarleg áhrif á líf annarra einstaklinga sem komu út úr skápnum í kjölfar myndbandsins. Síðan þá hef ég reynt eins og ég get að sýna fram á fegurðina sem býr í lífinu utan skápsins.“

Vill hvetja aðra

Guðmundur Kári ferðast nú á milli grunnskóla og fræðir krakka í unglingadeildum um hvað það þýðir að vera hinsegin og hvernig það er að koma úr skápnum. Hann segir þörfina á slíku vera mikla, einkum á landsbyggðinni.

„Ég kem úr Búðardal og þegar ólst þar upp þá var ekki til neitt sem hét að vera samkynhneigður. Það var bara í bíómyndum eða fréttunum. Samkynhneigð var ekki til í Búðardal þannig að ég vissi varla hvað þetta var. Þess vegna vil ég helst hitta krakka í grunnskólum úti á landi og miðla af reynslu minni.”

Hlustaðu á nýjan síðdegisþátt þeirra Loga Bergmann og Sigga Gunnars á K100 alla virka daga frá 16 til 18. 

Fróðlegt viðtal við Guðmund Kára er í spilaranum hér fyrir neðan. 

mbl.is