Svaraði í símann á Papinos: „Allir héldu að ég væri stelpa“

Jökull Breki og Fannar Ingi skipa Hipsumhaps
Jökull Breki og Fannar Ingi skipa Hipsumhaps Baldur Kristjáns

Þeir Jökull Breki og Fannar Ingi skipa hið vinsæla tvíeyki Hipsumhaps sem vakið hefur athygli undanfarið fyrir skemmtilegar lagasmíðar og frumlega texta. Þekktasta lagið er án efa LSMLÍ (Lífið sem mig langar í) en nýjasti smellurinn er Fyrsta ástin.

Hvað er í matinn í kvöld? 

Strákarnir voru gestir Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum á föstudag þar sem þeir mættu í dagskrárliðinn „Hvað er í matinn“ en þeir Siggi og Logi Bergmann sem stýra þættinum leitast við að finna svarið við þeirri spurningu og því hvað fólk á að horfa á í sjónvarpinu á degi hverjum. 

Jökull er ábyrgur samfélagsþegn og er að reyna að verða grænmetisæta eða jafnvel vegan fyrir áramót. Hann ætlaði því út að borða á nýjan veganstað í Hafnarfirði á föstudagskvöld.

Fannar Ingi er hefðbundnari en í hans fjölskyldu tíðkast að hafa heimagerða pizzu á föstudagskvöldum. Eitthvað sem er algjörlega heilagt hjá þeim og segist hann ónýtur ef hann er staddur erlendis á föstudögum og geti því ekki tekið þátt í pizzakvöldi. 

Fannar er sömuleiðis mikill pizzaspekúlant en hann hefur unnið á nokkrum pizzastöðum og sagði okkur sögur af því. „Fyrst vann ég á Papinos þegar ég var 14 ára. Ég fékk þessa vinnu gegnum nágranna minn. Allir héldu að ég væri stelpa þegar ég svaraði í símann í símaverinu því ég var ekki kominn í mútur. Ég tók það nærri mér og fékk því að færa mig í að setja áleggið á.“ sagði Fannar. „Ég var svo líka pizzasendill í Noregi árið 2011.“

Uppselt á fyrstu tónleikana og aukatónleikar í kortunum

Strákarnir héldu sína fyrstu tónleika í Bæjarbíói í gær, útgáfutónleika fyrir plötuna Best geymdu leyndarmálin, og var uppselt á þá. Voru þeir mjög ánægðir með árangurinn og hafa því ákveðið að telja í aukatónleika 22. nóvember í Bæjarbíó sömuleiðis og er miðasala hafin á þá. 

Þú getur horft á skemmtilegt viðtal við þá Fannar og Jökul í Hipsumhaps í spilaranum hér að neðan. 

mbl.is