Sjón skrifar handrit að nýrri mynd með Nicole Kidman

Mynd: Samsett

Tímaritið Variety greinir frá því að kvikmyndin „The Northman“ sé í burðarliðnum með Nicole Kidman og Alexander Skarsgård í aðalhlutverkum.

Það hlutverkaval ruglar ef til vill aðdáendur þáttanna „Big Little Lies“ í ríminu en þar leika þau Kidman og Skarsgård par. Í myndinni um Norðmanninn er meiningin að Kidman leiki móður Skarsgård. Viðræður eru langt komnar og fastlega má búast við að tökur hefjist fljótlega.  

Leikstjórn verður í höndum Robert Eggers en hann semur jafnframt handrit myndarinnar í samstarfi við íslenska rithöfundinn Sjón, að því er Variety greinir frá.

Kvikmyndin um Norðmanninn er sögð eiga að gerast á Íslandi á víkingaöld. Þar er ófriðarbál og norrænn prins heldur í leiðangur til að hefna morðs föður síns. Alexander Skarsgård mun líklega fara með hlutverk prinsins en bróðir hans, Bill Skarsgård, mun líklega fara með hlutverk bróður hans í myndinni. Það er þó ekki frágengið. Nicole Kidman er í viðræðum um að leika móður þeirra, eins og áður segir, en Willem Dafoe og Anya Taylor-Joy eiga einnig að leika stór hlutverk í myndinni.

Nýjasta mynd Eggers, “The Lighthouse” var frumsýnd á Cannes í maí og fékk mjög góða dóma.

Nicole Kidman má senn sjá í myndinni Bombshell þar sem hún leikur fréttakonuna Gretchen Carlson á Fox News sem höfðaði mál gegn yfirmanni sínum, Roger Ailes, fyrir kynferðislega áreitni.

Frétt Variety

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist