Brimkló saman á ný?

Björgvin Halldórsson.
Björgvin Halldórsson. Árni Sæberg

„Það er mikið búið að vera að tala um þetta. Ég er alltaf til í allt en það eru fleiri í þessari hljómsveit en ég.“ Þetta segir stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson, aðspurður hvort von sé á endurkomu hljómsveitarinnar Brimkló. Sterkur orðrómur er á kreiki um að hljómsveitarmeðlimir séu að dusta rykið af hljóðfærunum og ræða að koma fram á ný. Rætt var við Björgvin í morgunþættinum Ísland vaknar á K100.

Ein vinsælasta hljómsveit Íslands

„Síðast þegar Brimkló var starfrækt þá vorum við sjö í bandinu,“ segir Björgvin. „Það þurfa allir að vilja vera með í þessu en menn eru auðvitað misjafnlega upplagðir, sem eðlilegt er.“

Óhætt er að segja að Brimkló sé ein vinsælasta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu. Hún varð til upp úr hljómsveitinni Ævintýri í kringum 1976 og voru stofnendur, auk Björgvins, þeir Arnar Sigurbjörnsson, Ragnar Sigurjónsson, Hannes Jón Hannesson og Sigurjón Sighvatsson.

Hljómsveitin Brimkló eins og hún birtist landsmönnum á seinni hluta …
Hljómsveitin Brimkló eins og hún birtist landsmönnum á seinni hluta síðustu aldar. Mynd: Facebook síða Brimkló

Á gjöfulum ferli hljómsveitarinnar, sem markaði upphaf kántrítónlistar á Íslandi, urðu til ódauðlegir smellir á borð við Ég las það í Samúel, Glímt við þjóðveginn, Skólaball, og Sagan af Nínu og Geira. Hljómsveitin hefur í raun aldrei „hætt“ heldur legið í dvala með nokkurra ára millibili og endurreist þess á milli.

Spurður um eftirspurn eftir nýjum lögum segir Björgvin að það séu leyndar perlur í fjölmörgum plötum sveitarinnar sem heyrast ekki oft.„Síðasta platan okkar, Smásögur, var helvíti góð og fékk mjög góða dóma. Þar eru mjög góð lög eins og „Má ég pússa regnbogann“ og „Þrír litlir krossar“ sem mættu heyrast oftar,“ segir Björgvin.

Endurkoman er í pípunum en Björgvin er varkár í yfirlýsingum. „Málið er að þessu er ekki vippað upp einn-tveir og þrír. Menn hafa sumir ekki spilað lengi og það þarf að æfa þetta þangað til þetta steinliggur. Þetta er svolítið í umræðunni eins og í tengslum við að 4. september síðastliðinn voru 50 ár liðin frá Popphátíðinni.”

Viðtalið við Björgvin má heyra í spilaranum hér fyrir neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist