Ed Sheeran og Harry prins saman í átaki

Ed Sheeran og Harry prins.
Ed Sheeran og Harry prins. Skjáskot: Instagram/Sussex Royal

Tónlistarmaðurinn Ed Sheeran og Harry, hertoginn af Sussex, leiða saman hesta sína í myndskeiði sem birt er á Instagram-svæði hertogans. Tilgangurinn er að minna á mikilvægi alþjóðageðheilbrigðisdagsins sem er haldinn víða í heiminum í dag, 10. október. 

Ed Sheeran virðist þó eitthvað hafa misskilið skilaboðin frá Harry þar sem hann hélt, í góðu gríni, að hann ætti að semja alþjóðlegan baráttusöng rauðhærðra og um réttindi þeirra í samfélagi manna. 

Þeir Harry og Ed vilja minna á að það sé ekki bara í dag heldur alla daga að við eigum að annast okkur sjálf og þá þá sem standa okkur næst.

„Það er algjör óþarfi að þjást í þögn, deildu hvernig þér líður. Spurðu hvernig einhver hefur það og hlustaðu. Vertu viljug(-ur) til að biðja um hjálp þegar þú þarfnast hennar. Við erum í þessu saman,“ segja þeir félagar í yfirlýsingu. 

mbl.is