Karlar eru einmana

Mynd: stocksnap.io

Hjá mörgum reynist erfiðara að mynda ný tengsl og halda í vináttu á fullorðinsárum en á mótunarárum bernskunnar. Ný könnun leiðir í ljós að karlmenn eru líklegri til að verða meira einmana á lífsleiðinni en konur. Þeir sem karlar líta á sem vini sína geta reynst fjarverandi og tengslin, þegar til kastanna er komið, eru kannski ekki svo sterk.  

Könnun YouGov í Bretlandi frá því í sumar sýnir að „samfélagsmiðla-kynslóðin“ er einmana. Einn af hverjum fimm karlmönnum viðurkennir að eiga enga nána vini. 32% segjast ekki hafa neinn sem þeir líta á sem sinn besta vin. Þetta eru miklu hærri tölur en mælast hjá konum. Aðeins 12% þeirra segjast ekki hafa nána vini og 24% segjast ekki eiga einhvern sem þær líta á sem sinn besta vin.

Könnunin náði til 2.149 fullorðinna í Bretlandi. Næstum því helmingur karla eða 44% sögðust vera stundum, oft eða alltaf einmana. Önnur könnun af svipuðum toga sýndi fyrr á þessu ári, að karlmenn telja sig meira tilfinningalega tengda hundinum sínum en öðrum manneskjum. Þetta er broslegt, en er samt grafalvarlegt.

Hvað er í gangi?

Gamla lumman, að karlar séu ekki eins góðir að tjá sig og konur og nenni ekki að ræða um tilfinningar, á enn þá ágætlega við. Rannsóknir staðfesta þetta. Sú nýjasta kemur frá háskólanum í Oxford sem sýnir að karlmenn myndi frekar tengsl augliti til auglitis þegar verið að gera eitthvað ákveðið á meðan konur eigi auðveldara með að mynda tilfinningatengsl í símtali. Áhugavert væri að skoða tengsl sem myndast, viðhaldast eða skerðast í spjalli á netinu. Dr. Diana Gall frá Doctor-4-U bendir á að fram séu komnar rannsóknir sem gefi til kynna að samskipti sem eingöngu fara fram á netinu ýti undir neikvæð áhrif, einkum hjá karlmönnum, og auki við einmanaleika þeirra.
Enn ein rannsóknin, sem birt er í tímaritinu: „Plos One“ sýnir að vinátta karlmanna er líklegri til að þrífast í hóp á meðan vinátta kvenna er meira „ein-á-móti-einni“.

Sálfræðingurinn Lucy Beresford bendir á í viðtali við Yahoo að það sé ekki bara að karlar eigi erfitt með að eignast vini. Eðli vináttu karla og kvenna er gjörólíkt. „Karlar eru líklegri til að mynda vináttu í starfinu eða í hópíþróttum. Að fara á barinn eftir vinnu með nokkrum vinum leiðir ekki sjálfkrafa til að karlmenn felli grímuna og þori að vera berskjaldaðir og afhjúpa sitt sanna sjálf. Að sýna viðkvæmni geta karlar túlkað einhvers staðar djúpt niðri sem veikleikamerki. Slíkt skaðar samkeppnishæfni þeirra því karlar eru jú oft að keppa.“   

Bent hefur verið á að karlar séu að sligast undir álagi í vinnu og í föðurhlutverkinu og slíkt kemur niður á hæfni þeirri við að rækta vináttusambönd. Dr. Earim Chaudry, sem fer fyrir karlaheilsuvefnum Manual, segir að samfélagið standi ekki með körlum sem þora að afhjúpa sig, sýna viðkvæmni og tjá sig til fulls. „Af því leiðir að gæði náinnar vináttu milli karla eru ekki eins sterk og hjá konum sem leiðir til aukins einmanaleika.“ Dr. Chaudry trúir að karlar óttist að vera viðkvæmir með vinum og fjölskyldu. Slíkt myndi bjóða upp á að þeir verði auðveld skotmörk. „Í menningu okkar eru náin tengsl karla lítið sem ekkert metin. Oft er hinn „einmana úlfur“ hafður meira í hávegum.“

Einmana eins og 15 sígarettur

Einangrun og einmanaleiki geta haft meiri háttar neikvæðar afleiðingar á líkamlega og andlega heilsu. „Án traustrar vináttu getur fólk upplifað einmanaleika sem leitt getur til þunglyndis,“ segir Niels Eék, klínískur sálfræðingur og einn stofnenda Remente. „Ný rannsókn sýnir að einmanaleiki hefur skaðleg andleg og líkamleg áhrif. Því hefur verið líkt við áhrif þess að reykja 15 sígarettur á dag.“

En hvað er hægt að gera í þessu?
Eins hallærislega og það hljómar fyrir karlmenn virkar best að taka fyrsta mikilvæga skrefið, sem er að opna munninn og tala. „Tjáning dregur úr einmanaleika,“ segir dr. Chaudry. „Með því að viðurkenna vandann og ræða hann opinskátt er hægt að opna fyrir möguleika og aðgerðir sem hægt er að nota til að draga úr einangrun. Það eru ótrúlega miklar kröfur gerðar til karlmanna að sýna „karlmennsku“. Þeir eiga að sýnast sterkir, tilbúnir í alls konar átök og áskoranir, en þannig er ekki raunveruleiki allra.“

Leggðu mat á vináttusambönd

Dr. Gall stingur upp á að leggja fyrst mat á þau vináttusambönd sem fyrir eru og spyrja hvers eðlis þau eru og á forsendum hvers. „Það er líklega góð hugmynd fyrir karla, sem upplifa einmanaleika, að meta hvernig þeim líður með núverandi vini og tengsl,“ segir hún. „Það gæti verið dýrmætt að taka frá tíma til að hugleiða hvort þau vináttusambönd veiti möguleika á að tala um allt og ekkert. Svarið gæti legið í augum uppi. Kannski er kominn tími til að hafa samband við eldri vini sem hafa ef til vill fjarlægst. Og kannski uppgötvast að núverandi vinir geta ekki lengur veitt þann stuðning sem þörf er fyrir.“

Kíktu í heimsókn

Dr. Chaudry leggur til að taka frá tíma í hverri viku til að hringja í karlkyns vini og eiga raunverulegt spjall en ekki yfirborðshjal. „Ef vinur þinn er að ganga í gegnum erfiðleika áttu sjálfkrafa ekki að ýta því frá af því hann er karlmaður og gera ráð fyrir að hann sé nógu sterkur til að fást við það einn. Sannleikurinn er að hann er það sjálfsagt en það þýðir þó ekki að honum gangi betur án þín. Karlar ættu að reyna að vera með vinum sínum í daglegu lífi, ef það er mögulegt. Fara saman í ræktina, sund, bíó, út að borða, hvað sem er til að útrýma þeim faraldri sem einmanaleikinn er að verða.“ 

Karlar standa saman í Mottumars.
Karlar standa saman í Mottumars. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gerðu eitthvað nýtt

Fyrir karla sem eiga erfitt með að mynda ný tengsl stingur dr. Chaudry upp á að finna aðra karla sem eiga svipuð áhugamál. „Prófaðu að ganga í félag sem tengist áhugamálinu þínu og tengjast öðrum þar. Kannski er einhver viðburður sem þú hefur áhuga á sem þú deilir með öðrum. Ef til vill eru vinnufélagar og gamlir vinir nær þér en þú heldur. Fólk er alltaf miklu meira móttækilegra en maður heldur.“

Bókaðu „vinatíma“

Reyndu að hitta vini þína, gamla sem nýja eins reglulega og þú getur, segir Eék. „Ef dagskráin er stíf og það er mikið að gera, reyndu að gera ráð fyrir „vinatíma“ í dagbókinni. Reyndu að hitta vini þína eins reglulega og þú getur,“ segir hann. „Vertu bara viss um að þú sért að gera eitthvað með vinum þínum sem passar við þinn persónuleika. Ef þú ert hressa morguntýpan þá gæti, til dæmis, hentað betur að hitta vini þína í morgunmat á kaffihúsi frekar en seint um kvöld yfir bjór og hamborgara. Ef þú hefur gaman af ræktinni, farðu þá endilega þangað á þeim tíma sem hentar með vini eða vinum.“

Grein Yahoo Lifestyle.

mbl.is