Sjálfvirkur reiðhjólahjálmur

Mynd: hovding.com

Þetta er Hövding 3, glæný útgáfa af hjólahjálmi sem á sjálfvirkan hátt fer yfir höfuðið á broti úr sekúndu ef slys verður. Ef sá sem klæðist hjálminum fellur eða verður fyrir höggi sendir hjálmurinn samstundis út boð til viðbragðsaðila.

Sænska fyrirtækið Xploids er að koma Hövding 3 hjálminum á markað, að því er tækjasíðan Tomsguide greinir frá. Hjálmurinn hefur verið prófaður af vísindamönnum Stanford-háskóla sem hafa reiknað það út að þessi tegund af reiðhjólahjálmi sé 8 sinnum öruggari en hefðbundnir hjálmar. Fyrirtækið heldur því fram að hjálmurinn dragi þrisvar sinnum betur úr höggþunga en hingað til hefur þekkst.

Hér er myndband af því þegar hjálmurinn var prófaður:

Hjálmurinn er stöðugt að mæla hreyfingu þess sem notar hann og meta, um 200 sinnum á sekúndu, hvort óeðlileg hreyfing verður. Ef skyndileg hraðaminnkun verður eða breyting á stefnu þá virkjast hjálmurinn á örskotsstundu.

Hövding 3 er tengdur með Bluetooth við snjallsímann og iOS eða Android smáforrit mun samstundis hringja í þann aðila sem notandinn hefur skilgreint til að taka við neyðarsímtölum.

Mynd: hovding.com

Eina vandamálið við hjálminn, að sögn þeirra sem hafa prófað hann, er að hann verður að vera full hlaðinn fyrir hverja notkun. Fyrirtækið segir batteríið geta dugað í 15 klukkutíma og að hægt sé að hlaða það með USB-C snúru.

Fyrirtækið tekur þó skýrt fram að hjálmurinn, sem seldur er á um 300 evrur eða 41 þúsund krónur, sé einungis ætlaður fyrir reiðhjólafólk í borgarumhverfi. Hann sé ekki hannaður fyrir ferðir á þjóðvegum.

mbl.is