Hugleikur: „Draumur hvers listamanns að vera umdeildur“

Hugleikur Dagsson segir það sjaldan koma fyrir að hann fái …
Hugleikur Dagsson segir það sjaldan koma fyrir að hann fái kvartanir þegar hann fer yfir strikið með gríni sínu. Styrmir Kári

„Það góða við kúk og piss er að allir í heiminum kúka og pissa og ég get bara haldið mig við svoleiðis grín. Líkamsvessagrín skilst alls staðar í heiminum.“ Þetta segir Hugleikur Dagsson, listamaður og grínari, í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar á K100.

Hann flytur nú af landi brott til Berlínar þar sem hann hefur haslað sér völl að undanförnu. Síðasta uppistand hans og félaga hans, Jonathans Duffys, verður í Austurbæ í kvöld. Þar ætla þeir að vera með dansatriði og erótískan upplestur.

„Það hljómar ekki sérstaklega vel að vera grínisti í Þýskalandi. Þjóðverjar eru ekki beint þekktir fyrir húmor,“ segir Hugleikur. „Það búa þó allra þjóða kvikindi þarna. Berlín er alþjóðleg borg svo grínsenan er eins og í New York eða London.“ Þeir Hugleikur og Jonathan hafa ferðast til 18 landa að undanförnu og verið með uppistand. Eftir sýninguna í kvöld mun Hugleikur flytja til Berlínar þar sem hann ætlar að dvelja í ár.  

Hugleikur segir það sjaldan koma fyrir að hann fái kvartanir þegar hann fer yfir strikið með gríni sínu. „Örsjaldan hefur fólk komið til mín til að gera athugasemdir. Ég man eftir einu skipti að kona á miðjum aldri kom upp að mér og kvartaði yfir því að ég væri alltaf að ögra. Hún var ekki nógu nákvæm því ég var svo forvitinn að vita hvaða brandari það var sem stuðaði hana. Ég varð þó svo upp með mér því fólk hefur aldrei komið til mín og kvartað. Aðallega segir það eitthvað jákvætt. Það er draumur hvers listamanns að vera umdeildur en mér finnst ég ekkert vera umdeildur því ég fæ aldrei kvartanir, þær rata aldrei beint til mín, nema ég skrolli niður þræðina á Facebook en ég má ekkert vera að því.“

Viðtalið við Hugleik í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.


mbl.is