„Hefðbundnar“ bækur seljast ennþá meira en rafbækur

Þúsaldakynslóðinni svonefndu er stundum kennt um að hafa slátrað iðngreinum. …
Þúsaldakynslóðinni svonefndu er stundum kennt um að hafa slátrað iðngreinum. Það kemur á óvart að það er einmitt hjá henni þar sem hið prentaða orð nýtur mestra vinsælda. AFP

Það gæti komið á óvart en flestir lesendur, allavega vestanhafs, kjósa ennþá að lesa frekar „hefðbundnar“, útprentaðar bækur en rafbækur.

Samanlagðar tekjur allra bókaútgefenda í Bandaríkjunum í fyrra námu 26 milljörðum dala. Af því var hlutur rafbóka rétt rúmir 2 milljarðar dala en útprentaðra bóka 22,6 milljarðar dala. Þetta kemur fram í ársskýrslu samtaka útgefenda þar í landi sem CNBC vitnar til í frétt sinni. Inni í þessum tölum eru viðskipta- og kennslubækur auk skáldsagna.

Meryl Halls, framkvæmdastjóri samtaka bóksala í Bretlandi, segir að þó að stafræn útgáfa hafi haft truflandi áhrif á iðngreinar eins og dagblaða- og tónlistarútgáfur þá kunni fólk ennþá vel að meta að eiga bækur sem áþreifanlegan hlut.

„Ég held að rafbókarblaðran sé sprungin. Sala á rafbókum hefur jafnast út. Það er ennþá aðlaðandi að eiga hlut eins og bók. Útgefendur halda áfram að gefa út fallegar bækur með listilega hönnuðum kápum. Þetta eru fallegir hlutir,“ segir hún við CNBC. Hún bætir því við að fólk vilji sýna öðrum hvað það hefur áorkað að lesa.

„Lesendur vilja skrá hvað þeir hafa lesið og láta gjarnan aðra vita af því. Heimili eru hönnuð með það í huga og þar er hægt að sjá hvaða bækur hafa verið lesnar. Flest okkar vilja ljúka verkefnum. Skýrasta dæmið um að við höfum áorkað einhverju eru þær bækur sem við höfum lesið sem blasa við þeim sem heimsækja okkur.”

„Lesendur vilja skrá hvað þeir hafa lesið og láta gjarnan …
„Lesendur vilja skrá hvað þeir hafa lesið og láta gjarnan aðra vita af því. Heimili eru hönnuð með það í huga og þar er hægt að sjá hvaða bækur hafa verið lesnar." AFP

Samkvæmt Nielsen-rannsóknarfyrirtækinu njóta náttúrulífsbækur, matreiðslubækur og barnabækur mestra vinsælda af prentuðum bókum. Glæpasögur, ástarsögur og spennubækur eru vinsælastar sem rafbækur.

Áratugur er síðan Amazon setti Kindle lestölvuna á markað. Halls segir að það sé þörf fyrir að fá upplýsingar og að flýja frá skjánum. „Lesendur leita í prentið af alls konar ástæðum. Það er erfiðara að mynda tilfinningatengsl við það sem þú ert að lesa ef það er í lestölvu,“ segir Halls.

Unga fólkið vill bækur

Þúsaldakynslóðinni svonefndu er stundum kennt um að hafa slátrað iðngreinum. Það kemur á óvart að það er einmitt hjá henni þar sem hið prentaða orð nýtur mestra vinsælda.

63% af bókum sem seldar eru í Bretlandi eru til fólks sem er yngra en 44 ára. 52% af rafbókum eru seldar til þeirra sem eru yfir 45 ára, samkvæmt Nielsen rannsóknarfyrirtækinu.

Sömu sögu er að segja frá Bandaríkjunum. 75% fólks á aldrinum 18 til 29 ára sögðust hafa lesið bók árið 2017. Það er hærra en meðaltalið sem er 67%, samkæmt Pew Research.

Haft er eftir Jacks Thomas, stjórnanda bókakaupstefnunnar í London að eftirspurn eftir öllum tegundum bóka mun halda áfram að aukast, sama í hvernig formi þær eru gefnar út.

„Fólk mun alltaf þrá þekkingu og sögur. Frá því sjónarhorni er staða bókarútgáfu mjög sterk. Ég hef mjög mikinn áhuga á að sjá hvernig skólastofur þróast í framtíðinni. Það mun hafa mikil áhrif hvernig kynslóðir framtíðar munu umgangast hin skrifuðu orð. Sögur verða sagðar og þekkingu verður miðlað þannig að ég held að bókin eigi bjarta framtíð, sama í hvaða útgáfuformi hún verður.“

Frétt CNBC.

mbl.is