Gagnslaus uppfinning frá Japan

Hver vill ekki eiga tól sem er bæði kartöfluflögumatari og …
Hver vill ekki eiga tól sem er bæði kartöfluflögumatari og snjallsímapenni? Mynd: Japan Trend Shop

Internetið fór á hliðina árið 2010 þegar leikföngin Potechi no Te og Popcorn no Te komu á markað frá fyrirtækinu Takara Tomy. Um var að ræða tól, eða leikfang, sem var kjörið fyrir orkulausa sófaletingja sem nenna ekki einu sinni að nota puttana til að mata sig á snakki.

Nú hefur þetta algjörlega óþarfa tól verið uppfært í gjörsamlega tilgangslausa útgáfu sem enginn hefur beðið eftir, Potechinote Potato Chip Grabber Smartphone Stylus, sem hægt er að panta á netinu.

Alveg eins og með fyrra leikfangið, eða tólið, þá er hægt að nota það til að halda á einu og einu snakki. Nýsköpunin núna er að það er hægt að fjarlægja handfangið og nota tólið til að skrifa á snjallsíma eða spjaldtölvu. Með öðrum orðum, aldrei aftur kámugir puttar á skjám snjalltækja. Eða þannig.

Mynd: Japan Trend Shop.

Þetta er auðvitað tilgangslaust drasl eða chindogu eins og Japanir nefna það. Fyrirtæki eins og Thanko byggja afkomu sína á að bjóða svona varning til sölu, sem oft er sprenghlægilegur en vita gagnslaus.

Kartöfluflögumatarann má fá í ýmsum litum.
Kartöfluflögumatarann má fá í ýmsum litum. Mynd: Japan Trend Shop

Kartöfluflögumatarann, sem líka er skjápenni, er hægt að panta hér, ef þú hefur ekkert við peninginn að gera.

mbl.is