Mugison lærir á harmónikku

Tónlistarmaðurinn Mugison var í spjalli hjá Sigga Gunnars á dögunum.
Tónlistarmaðurinn Mugison var í spjalli hjá Sigga Gunnars á dögunum.

„Hefur þú séð myndina Groundhog day? Þannig er lífið í Súðavík,“ sagði Mugison í gríni spurður um lífið í Súðavík. „Nei, þetta er yndislegt, við erum þarna við Rúna með strákana okkar tvo. Þetta er yndislegt líf,“ bætti hann við. „Þetta á vel við okkur. Einfalt og strákarnir eru um mínútu að labba í skólann. Ég er með aðstöðu heima og er þannig séð alltaf heima.“

Mugison sendi frá sér nýtt lag í byrjun sumars sem heitir Sólin er komin. Hann segist eiga nóg af efni í nýja plötu. „Ég ætlaði að klára nýja plötu núna en svo fór ég að gera bíómyndamúsík. Ég er að gera tónlist fyrir Ragga Braga sem er að gera kvikmyndina Gullregn, ég verð í því fram að áramótum.“

Tónleikar um helgina

Mugison fór í tónleikaferð í sumar um landið. Lokatónn á þeirri ferð verður sleginn í Háskólabíói um helgina. Á tónleikunum stendur hann lengst af einn á sviðinu og segir konu sína kalla sig þá „Mjúkison“. Vinir hans mynda lítinn kór sem kemur fram í nokkrum lögum. Á einum tímapunkti sleppir hann gítarnum og tekur upp harmónikku en hann segist hafa verið síðustu mánuði að læra á það hljóðfæri.

„Í maí þegar ég byrjaði að túra kunni ég eiginlega ekkert á harmónikku en núna, þremur, fjórum mánuðum síðar, er ég orðinn nokkuð góður. Ég sé fyrir mér að þorrablótsmarkaðurinn muni koma sterkur inn,“ segir Mugison glottandi.

Einhverjir miðar eru ennþá lausir á tónleikana sem fara fram í Háskólabíói á föstudags- og laugardagskvöld. Hlustaðu á allt viðtalið við Mugison og einstaklega fallegan lifandi flutning á laginu Stingum af í spilaranum hér að neðan.

 Horfðu og hlustaðu á magnaða flutning Mugison af Stingum af í spilaranum hér að neðan:

mbl.is