Bítlasagan breytt

Bítlarnir á gangbrautinni víðfrægu við Abbey Road-stúdíóið.
Bítlarnir á gangbrautinni víðfrægu við Abbey Road-stúdíóið.

Hljóðupptaka af fundi sem Bítlarnir áttu fyrir 50 árum hefur leitt í ljós að þeir stefndu að því að gera aðra plötu eftir að Abbey Road, síðasta platan sem Bítlarnir hljóðrituðu, kom út (Let It Be var hljóðrituð á undan henni en kom út á eftir henni).

Rokksagnfræðingurinn Mark Lewisohn leyfði blaðamanni Guardian að hlusta á upptökuna þar sem þeir John Lennon, Paul McCartney og George Harrison ræða málin og er heldur stirt milli þeirra. Upptakan var gerð á fundi í höfuðstöðvum Apple-plötuútgáfunnar við Savile Row í London. Lennon tók fundinn upp fyrir Ringo Starr, sem var fjarverandi.

Á upptökunni heyrist Lennon ræða möguleikann á næstu plötu og því að smáskífa komi út fyrir jólin 1969 en almennt hefur verið talið að Lennon hafi átt einna stærstan þátt í því að hljómsveitin lagði upp laupana. Lewisohn er mikill Bítlafræðingur og segir í samtali við Guardian að þetta sé mikil uppgötvun og endurskrifi í raun söguna um endalok hljómsveitarinnar.

Deildu um gæði laga

Á upptökunni heyrist Lennon leggja til að þeir ættu allir að leggja fram lög til að velja úr fyrir smáskífuna. Hann leggur einnig til nýja uppskrift þegar kemur að samsetningu næstu plötu, þ.e. að hann, McCartney og Harrison leggi til fjögur lög og Starr tvö. Hvert lag verði því eignað einum lagahöfundi. McCartney svarar því þá til, heldur ögrandi, að hann hafi talið að lög Harrisons væru ekki það góð. Líklega er hann með þeim ummælum að skjóta á Lennon og hrósa Harrison með heldur sérkennilegum hætti. Nefnir Guardian sem dæmi um getu Harrisons í lagasmíðum lögin „Taxman“ og „While My Guitar Gently Weeps“. Harrison svarar því til að um smekksatriði sé að ræða en fólk hafi almennt kunnað að meta lögin hans. Lennon skýtur þá á McCartney og segir að enginn í hljómsveitinni hafi kunnað að meta lag hans „Maxwell's Silver Hammer“ og að betur hefði farið á því að leyfa öðrum tónlistarmönnum að flytja það.

Eins og heyra má var sambandið heldur stirt milli Bítlanna þriggja á fundinum og mun það koma við sögu í sviðsverki um tilurð plötunnar Abbey Road eftir Lewisohn, Hornsey Road, þar sem notast verður m.a. við hljóðupptökur, kvikmyndir, ljósmyndir og tónlist. Umslag plötunnar er eitt það þekktasta í sögu dægurtónlistarinnar en á því sjást Bítlarnir ganga yfir gangbraut við Abbey Road-hljóðverið í London. Gangbrautin er eflaust sú frægasta í heimi og má fylgjast með henni á netinu allan sólarhringinn og öllum þeim ferðamönnum sem líkja þar eftir ljósmyndinni frægu af Bítlunum, ökumönnum mörgum til lítillar ánægju.

mbl.is

#taktubetrimyndir