Var strítt fyrir að teikna á bol

Mynd: Laura Snyder/facebook.

Ungur nemandi í Flórídaríki í Bandaríkjunum, og einlægur aðdáandi Volunteers, fótboltaliðs háskólans í Tennesse, vildi mæta í búningi liðsins á „litadegi“ í skólanum. Hann átti því miður ekki slíkan búning en dó ekki ráðalaus og teiknaði sjálfur merki liðsins framan á bol sem hann átti og mætti í honum í skólann.

Laura Snyder, kennari hans í Altamonte-skólanum í Altamonte Springs, segir við CNN að hann hafi teiknað stafina „U.T.“, einkennisstafi háskólans, á pappír og fest með nælum í appelsínugulan bol.

„Hann var svo ánægður og glaður að sýna mér bolinn,“ segir Snyder í facebookfærslu sinni um þetta. Um hádegi, sama dag, var hann hins vegar niðurbrotinn, sár og grét í einrúmi.

„Stelpur sem sátu nálægt honum í hádegismatnum gerðu óspart grín að bolnum hans. Hann varð alveg miður sín og tók það mjög nærri sér,“ skrifaði Snyder en hún lætur ekki nafns drengsins getið.

Hún hugðist hressa hann við með því að kaupa bol fótboltaliðsins fyrir hann sem væri með réttu opinberu merki þess.

Daginn eftir hafði hins vegar færsla hennar fengið mikla útbreiðslu og náð til aðdáenda og stjórnenda Volunteer-liðsins sem létu senda honum treyjur, boli og aðra muni sem tengdust liðinu.

Snyder var fljót að svara og þakka fyrir, fyrir hönd drengsins. Hún skrifaði að hann hefði glaðst mjög og væri mjög stoltur að klæðast treyju uppáhaldsliðs síns. Einlægni hans og þakklæti hefðu snert marga.

Háskólinn í Tennessee bætti um betur og tilkynnti að hann ætlaði að nota „U.T.“-hönnun drengsins í fjöldaframleidda boli skólans. Ágóði af sölu bolanna rynni til góðgerðarfélags sem berst gegn einelti.  

„Hann trúði ekki eigin eyrum þegar ég sagði honum þetta,“ segir Snyder kennari í færslu sinni. „Hann brosti breitt, varð beinni í baki og ég þóttist sjá að sjálfstraust hans jókst mikið í dag.“

Eftirspurn eftir bolnum var svo mikil um helgina að vefsíða háskólans, sem bauð hann til sölu, lá niðri um hríð.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist