Sorgarmiðstöð opnuð í Hafnarfirði

Hulda Guðmundsdóttir og Ína Lóa Sigurðardóttir ræddu tilurð Sorgarmiðstöðvar í …
Hulda Guðmundsdóttir og Ína Lóa Sigurðardóttir ræddu tilurð Sorgarmiðstöðvar í morgunþættinum Ísland vaknar á K100. K100

Sorgin getur verið óbærileg og margir vita ekki hvað er til ráða þegar djúp sorg bankar upp á við andlát ástvinar.

Sorgarmiðstöð er regnhlífarsamtök grasrótarfélaga á sviði sorgarúrvinnslu en það eru félögin Ný dögun, Birta, Gleymmérei og Ljónshjarta sem hafa tekið höndum saman og starfrækja hana í Hafnarfirði. Þar er hægt að ræða á jafningjagrunni við fólk sem þekkir sorgina og kann að leiðbeina í réttan farveg.

Flestir hafa upplifað sorg á einhverju stigi enda er sorgin hluti af lífinu. Sorgin getur komið fyrirvararlaust og hjá sumum er hún alltaf til staðar. Þær Ína Lóa Sigurðardóttir og Hulda Guðmundsdóttir ræddu tilurð Sorgarmiðstöðvar í morgunþættinum Ísland vaknar á K100.

„Dæmi eru um fólk sem er fast í sorg sinni,“ segir Ína Lóa. „Það getur hafa upplifað sáran missi fyrir mörgum árum en er kannski ennþá ofboðslega reitt út af einhverju sem gerðist í ferlinu. Læknirinn gæti hafa gert eitthvað rangt eða hjúkrunarfræðingurinn sagði kannski eitthvað óviðeigandi fyrir mörgum árum sem ennþá situr í.“  

Í Sorgarmiðstöð er hægt að fara í viðtöl þar sem greint verður á hvaða stigi sorgin er og þiggja aðstoð eftir þörfum. Ekki er um sálfræðinga eða faglega aðstoð að ræða heldur fer starfið fram á jafningjagrunni. Þekking er fyrir hendi til að vísa fólki í rétta átt ef þess er þörf.

Vera til staðar og hlusta

Þær Ína Lóa og Hulda segja að það gefi góða raun að tala við fólk sem hefur ef til vill upplifað sömu tilfinningar og verið í sömu sporum. „Bestu viðbrögð við sorg eru að vera til staðar, hlusta og leyfa fólki að syrgja en ekki endilega reyna að laga allt og breiða yfir allt,“ segir Ína.

„Sorgin, ef hún verður of mikil og íþyngjandi, getur mögulega leitt til fleiri sjúkdóma og annarra fylgikvilla en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Því er mikilvægt að hlúa að sér, leita sér upplýsinga um það sem í boði er og þiggja það.“

Opnun Sorgarmiðstöðvar fer fram í Lífsgæðasetrinu - fyrrum Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði fimmtudaginn 12. september klukkan 20:00 og eru allir velkomnir.

Áhugavert viðtal við þær Ínu Lóu og Huldu er hér fyrir neðan.

mbl.is