Ólafur Kristjánsson sem oftast gengur undir nafninu Óli tölva fylgdist náið með kynningu Apple-fyrirtækisins í gær og beið stöðugt eftir einhverju mikilfenglegu en allt kom fyrir ekki. Hann sagði þó að margt í kynningunni hefði verið mjög flott og mátti skilja á máli tækjaáhugamannsins að nýi síminn, iphone pro, stæði þar upp úr.
Myndavélarnar aftan á símanum eru þrjár talsins og taka myndir í gæðum sem notendur iphone-síma hafa ekki séð áður. Óli býr á Spáni og starfar meðal annars við upptökur á efni fyrir sjónvarp. Í starfi sínu hefur hann oft nýtt myndbandsupptökur úr iphone-símum sem uppfyllingarefni á móti tökum úr atvinnuvélum og að hans sögn er það vel gerlegt.
Viðtalið sem fór fram í gegnum síma var hins vegar líka tekið upp á símamyndavél við sundlaug á Spáni og má heyra það og sjá hér að neðan.