„Ein tafla getur drepið“

Sverrir Vilhelmsson

Páll Jónsson meðferðarráðgjafi segist í samtali við morgunþáttinn Ísland vaknar ekki hafa orðið var við neina upplýsingagjöf um hvað fólk noti mikið af læknadópi. 

Í starfi sínu leitar til hans fólk sem hefur ánetjast þessum lyfjum sem það kaupir í lausasölu á svörtum markaði og getur verið vandasamt að venja sig af. Hann segir gríðarlega mikilvægt að vara fólk við þeim ófögnuði sem þessi lyf geta verið. 

Dæmi eru um að lyf sem ætluð eru fólki með krabbamein á lokastigi og þá notuð sem hluti af líknandi meðferð séu aðgengileg ungu fólki. Slík lyf geta valdið fíkn og geta valdið því að fólk hætti að anda. 

Páll býr og starfar í Kent á Englandi og hefur einnig starfað í þessum geira hér á landi. Hann segir heilsuvakninguna sem breiðist um heiminn jákvæða, en víða hefur hún haft þau áhrif að ungt fólk tekur snemma á lífsleiðinni meðvitaða ákvörðun um að taka aldrei fyrsta sopann eða fyrstu pilluna sem kemur því í fíkn eða vímukennt ástand.

mbl.is