Húsnæðisverð í hæstu hæðum í Danmörku

Mynd: Sigurður Bogi Sævarsson

Lágir vextir og heilbrigt efnahagslíf skýra ört hækkandi fasteignaverð, að því er danska sjónvarpsstöðin TV2 greinir frá. Í tveimur af hverjum þremur sveitarfélögum Danmerkur hefur verð hækkað umtalsvert frá því á sama tíma í fyrra. Ef litið er til Danmerkur í heild hefur meðalfermetraverð einbýlishúsa ekki verið hærra síðustu 10 ár.

Lisa Nytoft Bergmann, hagfræðingur hjá Nordea-bankanum, segir markaðinn á mikilli uppleið. Lágir vextir spili þar stórt hlutverk sem ýti undir verðhækkanir. Bankar eiga auðveldara með að lána peninga til fasteignakaupa og auðveldara er að standast greiðslumat.   

Búist við frekari hækkunum

Ef horft er einunigs til einbýlishúsa hefur verð þeirra að meðaltali hækkað um 2,5% í Danmörku milli áranna 2018 og 2019. Meðalverð á 142 fermetra húsi er nú um tvær milljónir danskra króna eða um 38 milljónir íslenskra. Það er rúmum 49.000 dönskum krónum hærra verð en bauðst í fyrra, sem jafngildir um 900.000 íslenskum krónum.

Meðalfermetraverð er reiknað á 14.409 danskar krónur, 268 þúsund íslenskar, sem er hæsta verð einbýlishúsa í Danmörku síðustu 10 ára.

Christian Hilligsøe Heinig, aðalhagfræðingur Realkredit Danmark, segir að útlit sé fyrir áframhaldandi hækkun þar sem ekki sé útlit fyrir að vextir húsnæðislána séu á uppleið í bráð.

„Við eigum von á að verð á íbúðarhúsum hækki um 3-4% í ár sem endurspeglar ekki bara lágt vaxtastig heldur einnig styrk hagkerfisins. Aukin atvinnuþátttaka og verðmætasköpun eru eins og vítamínsprauta í þennan markað,“ segir Heinig sem telur að um leið og hægjast fer á hjólum atvinnulífsins, sem hljóti einhvern tímann að gerast, muni verð lækka.

0,5% vextir

Bæði Realkredit Danmark og Nordea Kredit buðu í síðasta mánuði 30 ára fasteignalán með 0,5% vöxtum. Það eru lægstu vextir sem nokkurn tímann hafa verið í boði í Danmörku. Margir hafa því endurfjármagnað lán sín sem hafa verið á 2-2,5% vöxtum og keypt stærra húsnæði þótt tekjur hafi kannski ekki aukist að verulegu leyti.

Um leið og verð á húsum í Danmörku hefur rokið upp eru verðhækkanir á íbúðum ögn hóflegri. Þar nemur hækkunin 0,9% á milli áranna 2018 og 2019. Árósar og Kaupmannahöfn skera sig úr hvað það varðar, að sögn Lisu Nytoft Bergmann hjá Nordea-bankanum. Þar er verð á íbúðum að nálgast efstu mörk. Erfitt sé að réttlæta frekari verðhækkanir þar.

mbl.is