Ungur ökumaður vespu hefði getað misst fótlegginn

Haraldur Jónasson/Hari

Ungt fólk á vespum þarf að fara varlega í umferðinni. Guðrún Ámundadóttir, sem starfar í forvarnarhópi Sniglanna, segir að alvarleg slys sem verða á reiðhjólum, rafmagnshjólum, rafmagnsvespum og þess háttar farartækjum sýni að mun betur verði að sinna forvarnar- og öryggismálum.

„Það er allt of algengt að unga fólkið fjölmenni hjálmlaust á þessum farartækjum sem komast upp í 50 km hraða þegar farið er niður brekkur,“ sagði Guðrún í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar á K100.  

Sniglarnir, bifhjólasamtök lýðveldisins, leggja áherslu á öryggi og ánægju í umferðinni. Fulltrúar þeirra hafa undanfarið rætt við krakka í skólum. 

„Við höfum heimsótt grunnskóla og farið yfir helstu öryggisatriði með krökkunum. Við sýnum með myndrænum hætti hversu mikilvægt er að nota hjálma og annan hlífðarfatnað og það hefur gefið góða raun,“ segir Guðrún.

Hún segir að einföld atriði, eins og til dæmis réttur klæðaburður, geti bjargað miklu þegar slys verða. Í viðtalinu hér að neðan nefnir hún dæmi um slys þar sem ökumaður vespu hefði að öllum líkindum misst fótlegginn hefði hann verið öðruvísi klæddur.


  

mbl.is