Nýir áhugaverðir sjónvarpsþættir

AFP

Björn Þórir Sigurðsson, Bíó-Bjössi, má ekkert vera að því að vera í vinnunni svo hann nái að komast yfir allt það glænýja sjónvarpsefni sem í boði er. Stærstu sjónvarpsstöðvar og streymisveitur kynna nú nýja þætti í dagskrá sinni.

Why Women Kill 

Þessir þættir, sem sýndir eru á CBS-sjónvarpsstöðinni, eru runnir undan rifjum sama höfundar og Desperate Houswifes. Sögur kvenna á þremur mismunandi tímabilum fléttast saman. Þær eiga það sameiginlegt að eiga algjörlega glataða eiginmenn, í orðsins fyllstu merkingu.


Emergence 

Þættirnir Emergence hefja göngu sína 24. september á ABC-sjónvarpsstöðinni. Þeir eru sagðir í anda Lost-þáttanna sem héldu áhorfendum spenntum svo mánuðum skipti. Flugslys verður nálægt litlum bæ og lítil stúlka er sú eina sem lifir það af. Röð undarlegra atvika gerir bæjarbúa forviða. Það er eitthvað skrítið við stúlkuna litlu.


Prodical Son 

Fox-sjónvarpsstöðin er með spennandi þætti um týnda soninn, Prodical Son. Söguhetjan starfar hjá lögreglunni við að greina hegðun fjöldamorðingja. Hann er eins og fæddur í starfið því pabbi hans skildi eftir sig blóði drifna slóð, einmitt sem fjöldamorðingi. Þarna tekst semsagt á hið eilífa streð að vera ekki að blanda fjölskyldunni saman við starfið og að starfa við það sem maður þekkir best.


Beforeigners 

Fyrsta norræna HBO-þáttaröðin hefur göngu sína á Stöð 2 um helgina. Um er að ræða þættina Beforeigners sem skartar þeim Ágústu Evu Erlendsdóttur og Jóhannesi Hauki Jóhannessyni í hlutverkum. Tímaflakkarar frá löngu liðinni tíð mæta allt í einu í Osló og þurfa að aðlagast aðstæðum.  

The Spy

Hér er á ferðinni mjög áhugaverð sería á Netflix þar sem sögu ísraelsks leyniþjónustumanns, sem fer huldu höfði í arabalöndum, eru gerð skil. Gamanleikarinn Sacha Baron Cohen er hér kominn mjög langt frá hlutverkum sínum sem Borat og Ali-G og sýnir á sér alveg nýja hlið.

The Capture

BBC sýnir þessa þætti sem sagðir eru svipaðir að gæðum og spennuþættirnir Bodyguard sem naut mikilla vinsælda.

Bíó-Bjössi fór nánar yfir þessa þætti og aðra í viðtali, sem sjá má hér að neðan, við morgunþáttinn Ísland vaknar á K100.

mbl.is