Gerir stólpagrín að Hitler

Skjáskot: youtube.com

Nasistar eru fávitar. Þetta er að minnsta kosti skilningur kvikmyndaleikstjórans Taika Waititi. Beðið er eftir nýjustu kvikmynd hans, Jojo Rabbit, með mikilli óþreyju en hún er sögð stútfull af hárbeittri háðsádeilu.

Nýsjálenski leikstjórinn leikstýrði síðast kvikmyndinni Thor Ragnarok og reif þá sögu upp úr meðalmennskunni þar sem ofurhetjan var sýnd eins og við hin (stundum); feit, slöpp og pirruð.

Uppfærða sagan um Thor hitti í mark og leikstjórinn tekst nú á við að gera stólpagrín að Hitler og nasistum í næstu mynd.

Flestar myndir um nasista eru ekkert sérstaklega fyndnar, nema kannski Inglorious Basterds, sem átti sína fyndnu spretti. Leikstjórinn er á því að nasistar eigi skilið að vera hafðir meira að háði og spotti, einkum nú um stundir, og leggur sitt lóð á vogarskálarnar.

Mynd: Imdb.com

Kvikmyndin Jojo Rabbit segir frá þýskum skólapilti. Tilveru hans er snúið á hvolf þegar hann kemst að því að móðir hans, sem Scarlett Johansson leikur, hefur falið gyðingastúlku á loftinu. Strákurinn á ruglukollinn Adolf Hitler sem ímyndaðan vin og verður að takast á við sína blindu þjóðernishyggju.

Myndin er væntanleg í kvikmyndahús vestanhafs strax eftir áramót en stiklan er stórskemmtileg.

mbl.is