Octopus-snekkja Pauls Allens til sölu

Snekkjan Octopus í Reykjavíkurhöfn árið 2016.
Snekkjan Octopus í Reykjavíkurhöfn árið 2016. Ernir Eyjólfsson

Glæsisnekkjan Octopus er nú til sölu, að því er Forbes greinir frá. Verðið jafngildir rúmum 40 milljörðum króna. Sú upphæð slagar upp í framlög íslenska ríkisins til allra háskólanna í landinu.

Octopus var áður í eigu milljarðamæringsins og annars stofnenda Microsoft Pauls Allens, sem lést í fyrra eftir baráttu við krabbamein, 65 ára að aldri.

Octopus er 126 metrar á lengd; rúmar 26 gesti í 13 káetum og 63 áhafnarmeðlimi í 30 káetum. Frá því hún var afhent árið 2003 hefur hún siglt um heimsins höf og tekið þátt í ýmsum björgunarleiðöngrum og rannsóknarstörfum.

Jakob Fannar Sigurðsson

Tvær lyftur eru í snekkjunni. Önnur er fyrir gesti og skipverja en hin er einkalyfta eigandans sem getur skotist á milli þilfara í einrúmi. Svo eru auðvitað sundlaug, nuddpottur, líkamsræktaraðstaða, bar, bókasafn, bíó og körfuboltavöllur.

Í snekkjunni eru einnig tveir björgunarbátar og rými fyrir stóran bíl og tvær þyrlur. Með snekkjunni fylgir þá kafbátur sem getur rúmað átta manns auk tveggja úr áhöfn.

Octopus Snekkjan er 126 metrar á lengd og er búin …
Octopus Snekkjan er 126 metrar á lengd og er búin tveimur þyrlupöllum, auk kafbáts. Um borð eru m.a. kvikmyndasalur, heilsulind og læknastofa. Styrmir Kári

Snekkjan er knúin áfram með hybrid-vélarafli og kemst hraðast um 19 hnúta. Hún fór nýlega í slipp og hefur verið mjög vel við haldið frá því hún var vígð árið 2003. Hér eru allar nánari upplýsingar fyrir áhugasama kaupendur.

mbl.is