iPhone XI á leiðinni og uppfært Apple-úr

AFP

iPhone XI verður kynntur til sögunnar frá höfuðstöðvum Apple í næstu viku. Eins og venjulega reyna forsvarsmenn fyrirtækisins að vera ekki með neinar yfirlýsingar fyrir kynninguna en litlir molar um það sem er í vændum leka einhvern veginn út hingað og þangað. Fyrirtækið er sagt ætla að kynna þrjár nýjar útgáfur af símanum og einnig uppfært Apple-úr.

Apple Watch 5 mun líklega líta mjög svipað út eins og úrið sem kom út í fyrra með svipaða eiginleika. Það sem er áhugavert verður nýtt stýrikerfi, watchOS6, sem einnig er væntanlegt í næstu viku. Snjallsímasíðan BGR fullyrðir að þeir sem eiga og nota þessi úr muni fljótlega ánetjast því sem í vændum er.

Svefnmælingar hluti af staðalbúnaði

Flestir sem eiga Apple-úr setja það væntanlega í hleðslu yfir nótt. Með nýja stýrikerfinu gæti það væntanlega breyst því samkvæmt óstaðfestum leka á netinu mun forrit sem greinir svefn fylgja með nýju stýrikerfi Apple-úra.  

Hingað til hefur verið hægt að hlaða í úrið smáforritum sem greina svefn en þau eru ekki hluti af staðalbúnaði þess. Væntanlega verður svefnmælingin nákvæmari með stöðluðum búnaði. 

Uppfæra þarf eldri-Apple úr í nýja stýrikerfið til að fá aðgang að svefnmælingunni. Skynjari úrsins nemur gögn úr heilsuforritinu og mælir gæði svefnsins. Það kveikir sjálfkrafa á „ónáðið ekki“-stillingu þegar notandinn fer að sofa og slekkur sjálfkrafa á vekjaraklukku ef vaknað er áður en hringing fer í gang.

Aðalvandamálið við að keyra svefnmælingu að nóttu úr úrinu er hleðslan á batteríinu.

Gárungar netsins segja að Apple sé að sjálfsögðu með ráð við því. Fyrirtækið tvöfaldi sölu úra með því að selja bara eitt úr til að nota á daginn og hitt til að mæla svefninn á nóttunni.

mbl.is