Blái herinn og Marglyttur vinna saman

Marglytturnar í allri sinni dýrð.
Marglytturnar í allri sinni dýrð. Ljósmynd/Ólafur Már Svavarsson

Tómas Knútsson, Blái herinn og Marglyttur ætla að taka höndum saman á morgun, miðvikudaginn, 21. ágúst, og hreinsa ströndina Mölvík.

Mölvík er auðveld en grýtt þörungafjara, stutt frá Grindavík. Frá Grindavík er keyrt vestur Nesveg nr. 425 í átt að Mölvík. Ströndin var hreinsuð með „flísatöng“ fyrir fjórum árum en er aftur dottin í sama far, að sögn Tómasar. Bretta þarf því upp ermar á ný. 

Fólk er hvatt til að klæða sig eftir veðri og koma með vatn, fjölnota poka og fjölnota hanska.

Synda og safna áheitum

Marglytturnar munu synda boðsund yfir Ermarsundið í byrjun september til að vekja athygli á plastmengun í hafi og safna um leið áheitum fyrir Bláa herinn sem hefur staðið að strandhreinsunum, hvatningu og vitundarvakningu í 24 ár. Áður en út er haldið munu þær leggja sitt af mörkum og bjóða öllum með í strandhreinsun í Mölvík.

Tómas hefur í gegnum tíðina unnið mikið með sendiráði Bandaríkjanna. Hermenn og aðrir sem tekið hafa þátt í loftrýmisgæslu hafa tekið virkan þátt í hreinsuninni.

Allar nánari upplýsingar má nálgast á grindavik.is.  mbl.is