Tónlistin losar um tilfinningar

Jóhannes Gauti, eða Skauti.
Jóhannes Gauti, eða Skauti.

„Ég byrjaði í grunnskóla að fikta við að gera tónlist, búa til takta og svona, svo glamra ég eitthvað á gítar líka,“ segir Jóhannes Gauti eða Skauti spurður um bakgrunn sinn í tónlist.

„Listmannsnafnið varð til vegna þess að þegar menn segja Jóhannes Gauti hratt getur millinafnið hljómað eins og Skauti. Nánustu vinir mínir kalla mig þetta stundum og ég ákvað svo bara að nota þetta.“ Skauti sendi frá sér sitt fyrsta lag í fyrrasumar, lagið Ekki heim, sem sló rækilega í gegn og varð sannkallaður „klúbbahittari“.

Fyrsta platan komin út

Nú ári síðar sendir hann frá sér heila plötu en þar kveður við annan tón en í laginu sem kom í fyrra. Platan heitir Sáluhjálp og kom út á Spotify á dögunum. „Ég ætlaði ekkert að gefa þetta út í byrjun. Var bara að búa þetta til fyrir sjálfan mig. Það var einskonar athvarf fyrir mig þegar mér leið ekki vel að búa til tónlistina sem er á þessari plötu,“ segir Skauti sem er svo sannarlega á persónulegu nótunum í lagasmíðum sínum. „Ég notaði tónlistina sem tæki til þess að losa um tilfinningar.“

Skauti er ekki einungis að fást við að skapa tónlist, en hann er að læra til læknis, nám sem krefst mikils tíma og einbeitingar. „Mér þykir gott að vera með nógu mörg tannhjól til að snúa hverju sinni, eitt þarf ekki að útiloka annað,“ segir þessi metnaðarfulli ungi læknanemi og tónlistarmaður sem er rétt að byrja.

Horfðu og hlustaðu á viðtalið við Skauta í spilaranum hér að neðan.

Hlustaðu á plötu Skauta á Spotify.

mbl.is