Sívinsæll í sumar

Páll Óskar í beinni á K100 frá 16 - 18 …
Páll Óskar í beinni á K100 frá 16 - 18 í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er gamall útvarpsmaður sem elska að þeyta skífum án þess að þurfa að hafa áhyggjur af hvort dansgólfið sé hoppandi eða ekki. Elska það enn,“ segir Palli sem lofar fjörugum þætti að vanda. Hlustendur mega eiga von á góðu því í bland við fjöruga tónlist laumar Palli einum og einum sjaldheyrðum gullmolum inni á milli. „Pallaball er alltaf blanda af diskói, House, Eurovision og endurhljóðblöndum af nýjustu lögunum í bland við stórfurðuleg sjaldheyrð lög. Svo krydda ég þetta alltaf með eigin hitturum, glænýjum og eldgömlum,“ segir Palli sem spilar enn þá alla tónlistina sína af geisladiskum og er ekkert á leiðinni að fara að nota tölvu til þess.

Félagarnir Siggi Gunnars og Páll Óskar stýra Pallaballi í beinni …
Félagarnir Siggi Gunnars og Páll Óskar stýra Pallaballi í beinni á K100.

Nóg um að vera hjá Palla í sumar

Palli verður fyrir norðan um helgina en hann verður á bæjarhátíðinni Vopnaskaki á Vopnafirði annað kvöld. Þá mun hann stýra aðalpartíinu í fótboltahúsinu Boganum á Akureyri í tilefni af Pollamótinu þar í bæ um helgina. „Ég elska að koma fram á Akureyri og ég hlakka mikið til að koma fram á Pollamótinu sem er eitt stærsta íþróttamót landsins. Þar mun ég koma fram fyrir alla sem vilja koma og skemmta sér, ekki bara þá sem eru á Pollamótinu.“

Þungarokksunnendur munu einnig fá sinn skammt af Palla í sumar því hann ætlar að troða upp öðru sinni á þungarokkshátíðinni Eistnaflugi í Neskaupstað 12. júlí. Þá mun hann einnig loka Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár og stíga á svið klukkan þrjú aðfaranótt mánudags. Þar með er ekki öll sagan sögð því þar sem Gleðigangan mun fara fram viku síðar í ár en venja er getur Palli einnig tekið þátt í hinum goðsagnakenndu Fiskidagstónleikum á Dalvík.

mbl.is