Nýr hljómur Ara Ólafssonar

Ari sendi frá sér lagið Too Good á dögunum.
Ari sendi frá sér lagið Too Good á dögunum.

Ara Ólafssyni kynntust flestir landsmenn í fyrra þegar hann var valinn til þess að keppa í Eurovision fyrir okkar hönd. Ari hefur verið í leiklist og tónlist frá unga aldri og þykir mjög hæfileikaríkur enda fékk hann inni í einum virtasta tónlistarskóla í heimi, Royal Academy of Music í London. Ari hefur ekki gefið út neina tónlist síðan hann tók þátt í Eurovision í fyrra en var að senda frá sér nýtt efni á dögunum. Það má segja að það kveði við nýjan tón en Ari hefur hingað til aðallega verið þekktur fyrir klassískan söng en nýja lagið er poppskotinn r'n'b-smellur.

Ari og Siggi Gunnars bregða á leik í stúdíói K100.
Ari og Siggi Gunnars bregða á leik í stúdíói K100.
„Ég flutti út í fyrrahaust og var að klára fyrsta árið mitt í skólanum. Þetta er búinn að vera algjör draumur,“ sagði Ari í samtali við Sigga Gunnars á K100 en hann er kominn heim til Íslands í sumarfrí. Ari hefur í vetur verið að vinna með vini sínum úr skólanum, Cian Ducrot, að nýrri tónlist og leit fyrsta lagið dagsins ljós nú fyrir nokkrum dögum. „Ég hef alltaf verið mikill poppmaður og hefur alltaf langað til þess að gera tónlist í þessum stíl,“ segir hann en þetta er fyrsta lagið í þessum stíl sem hann sendir frá sér. „Fyrirmyndirnar voru Justin Timberlake og Maroon 5,“ bætir hann við. „Það sem gerir þetta enn skemmtilegra er að hann er að læra klassískan flautuleik og ég klassískan söng en svo erum við að búa til svona poppmúsík á kvöldin.“ Þeir vinirnir vinna þetta allt sjálfir. „Við tókum myndina fyrir kynningarefnið á baðherberginu heima hjá Cian,“ segir Ari og hlær.

Lagið hetir „Too good“ og er komið út á Spotify og öðrum helstu veitum. Ef þú vilt heyra meira af ævintýrum Ara geturðu horft og hlustað á viðtalið við hann í spilaranum hér að neðan.

mbl.is