BDSM skyndilega á allra vörum

Hatari hafa sett BDSM á dagskrá sem er ekki óíkt …
Hatari hafa sett BDSM á dagskrá sem er ekki óíkt því sem þátttaka Dana International gerði fyrir transfólk fyrir rúmum 20 árum mbl.is/Eggert

Þátttaka andkapítalísku BDSM-hljómsveitarinnar Hatara í Eurovision hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum. Segja má að með þátttöku Hatara hafi ákveðið BDSM-æði gripið um sig á landinu og þykir það ekki tiltökumál að klæða sig í fatnað tengdan BDSM eða skreyta vörumerki og vörur í þessum stíl. En hvað ætli þeim sem stunda BDSM eða skilgreina sig BDSM-hneigða finnist um alla þessa athygli?

Sælgætisgerðin Freyja eru meðal þeirra sem hafa verið með BDSM …
Sælgætisgerðin Freyja eru meðal þeirra sem hafa verið með BDSM þema í vikunni.

„Við stöndum eiginlega gapandi og nuddum augum,“ segir Margrét Nilsdóttir, formaður BDSM á Íslandi, um þá miklu athygli sem BDSM hefur fengið í tengslum við þátttöku Hatara í Eurovision. „Það er frábært að sjá að það sé verið að setja okkur í nýtt samhengi. Eitthvað svona jákvætt, eitthvað skemmtilegt. Tengja okkur við eitthvað annað en lélega vonda karla í bíómyndum. Ég held bara að íslenska þjóðin og bara vonandi öll Evrópa sé í einhverskonar afnæmingu fyrir þessum neikvæðum tengslum sem hafa verið viðloðandi BDSM.“ Mörg fyrirtæki hafa undanfarið birt myndir af vörumerkjum og vörum sínum í BDSM-fatnaði og meir að segja lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók þátt með því að klæða lögregluþjóna í slíkan fatnað.

Margrét segir að allt auki þetta sýnileika BDSM og hjálpi til við að normalísera umræðuna. „Það er gríðarlega mikilvægt að fólk sé óhrætt að hugsa um BDSM, að ég tali nú ekki um að það leyfi sér að tala um BDSM án þess að fá eitthvert sjokk. Þetta er bara partur af mannlegum fjölbreytileika og ekkert sem skilgreinir mann frá a til ö, þetta er bara einhver persónulegur hluti af manni sem er mikilvægur fyrir mann en litar ekki allt lífið. Ef maður fréttir af því að Lára frænka hafi verið að skrá sig á einhverja BDSM-síðu þá á það ekki að vera eitthvert stórmál og breyta samskiptunum við téða frænku,“ segir Margrét og bætir við að líkja megi þessu sem Hatari er að gera núna við það þegar Dana International kom og setti transfólk á kortið með sigri í Eurovision 1998. „Við allavegana vonum að þegar rykið sest og Eurovision er búið að það sem standi eftir sé það að við séum til og að við séum ekki eitthvað klikkuð.“

Bónus eru meðal þeirra sem hafa verið með BDSM þema …
Bónus eru meðal þeirra sem hafa verið með BDSM þema í vikunni.

Margrét er sömuleiðis ánægð með hvernig Hatari hefur komið fram. Margir listamenn hafa í gegnum tíðina komið fram með einhverjar tengingar í BDSM, t.d. Rammstein, en það má segja að þetta sé í fyrsta skipti sem hljómsveit með jafn breiðan og stóran áheyrendahóp komi fram sem BDSM-listamenn. „Þau eru ekki bara að taka eina og eina táknmynd frá okkur upp úr kassanum og skreyta sig með henni heldur tala þau opinskátt um BDSM og að þau séu BDSM-hljómsveit.“

Margrét hefur gaman af Eurovision og horfir alltaf á keppnina en hún segir að keppnin hafi óneitanlega djúpstæðari merkingu í ár. „Það kæmi mér ekkert á óvart að við ynnum þetta í ár,“ bætir hún við að lokum jákvæð í bragði.

Margrét Nilsdóttir, formaður BDSM á Íslandi.
Margrét Nilsdóttir, formaður BDSM á Íslandi.

Hlustaðu á allt viðtalið við Margréti í spilarnum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist