Salka Sól og Arnar Freyr ganga í það heilaga

Salka Sól og Arnar Freyr.
Salka Sól og Arnar Freyr. mbl.is/​Freyja Gylfa

Salka var gestur Sigga Gunnars í Lögum lífsins á K100 þar sem hún sagði meðal annars frá fyrirhuguðu brúðkaupi í sumar. „Það var aldrei draumur hjá mér að verða brúður, ég hélt kannski að ég myndi aldrei gifta mig, en svo varð ég bara ástfanginn upp fyrir haus að mig langaði bara,“ segir Salka Sól sem kynntist Arnari Frey fyrir tæpum fjórum árum. „Við kynnumst í Sjallanum á sunnudegi um verslunarmannahelgi. Við höfðum verið að spila um allt land og enduðum helgina í Sjallanum í geggjuðu partýi með Úlfur úlfur en þá höfðum við í Amabadama aldrei spilað með þeim áður. Þar einhvern veginn erum við að spjalla allt kvöld og ég held að við verðum voða skotin í hvort öðru þá. Þannig að við kynnumst í gegnum hljómsveitirnar okkar,“ segir Salka en þau fóru að hittast reglulega eftir það og hlutirnir gerðust hratt. „Þetta small mjög snemma hjá okkur,“ bætir Salka við og nú fjórum árum síðar ætla þau að gifta sig. 

Skilja hvort annað

„Við erum dugleg að elta hvort annað þegar við erum að fara út á land og sýna hvort öðru hvað við erum að gera. Mestu forréttindin við að vera tónlistarmaður er hvað maður fær að ferðast mikið og ég held að ég sé búin að fara í öll bæjarfélög á landinu í gegnum tónlistina. Ef ég er ekki að spila þá er hann að spila,“ segir Salka þegar hún er spurð hvernig það er að vera par þar sem báðir aðilar starfa í sama bransanum. „Við þekkjum svo mikið af sama fólkinu. Við skiljum hvort annað þegar maður á erfitt gigg og kemur heim smá blúsaður og eins að maður þarf oft að vinna á kvöldin og um helgar,“ segir Salka. 

Nóg að gera á árinu

Það er ýmislegt annað fram undan árinu annað en brúðkaup hjá Sölku en hún leikur Ronju ræningjadóttur í Þjóðleikhúsinu um þessar mundir. Það er þó ekki eina leikhúsverkefnið á árinu hjá Sölku en hún mun halda út til Hong Kong í sumar og koma þar að uppsetningu leiksýningarinnar í Hjarta Hróa Hattar. Eins er Amabadama að leggja lokahönd á plötu sem kemur út á árinu. Þá greindi Salka frá því á Twitter í gær að hún hefði hlotið styrk úr Lýðheilsusjóði til þess að halda áfram að ferðast um með fyrirlesturinn sinn um einelti en í viðtalinu við Sigga í Lögum lífsins segir hún frá m.a. eineltinu og fyrirlestrunum. 

Hlustaðu á allt viðtalið við Sölku í spilaranum hér að neðan. Þú getur hlaðið skránni niður með því að smella hér.

Þáttur Sigga Gunnars er á dagskrá K100 alla virka morgna frá 09 - 12.

mbl.is