Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi formaður SÁÁ og yfirlæknir á Vogi, var á línunni í Ísland vaknar í morgun þar sem hann gagnrýndi heilbrigðisráðherra harðlega og sagði að hún ætti að segja af sér.
Þórarinn segir að vandinn í málaflokknum sé að vaxa hratt. „Flestar tölur síðustu 2 árin eru mjög slæmar,“ segir Þórarinn, en það sem af er ári hafa 27 manneskjur undir 40 ára aldri látist af völdum neyslunnar. „Aukningin er mest hjá þeim sem eru á milli 30 og 40 ára,“ segir Þórarinn.
Spurður um hvort það vanti aukna áherslu á forvarnir segir Þórarinn: „Einu og aðalforvarnirnar eru að hækka verðið og að hamla aðgang að vímuefnum. Það eru einu forvarnirnar sem duga. Auglýsingar og armbönd gera ekki neitt.“
„Fólk deyr á biðlistum,“ segir Þórarinn og talar um biðlistann á Vogi sem hann segir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra ekki viðurkenna en hann sagði m.a. í facebook-færslu í gær: „Heilbrigðisráðherra segir að fólkið á biðlistanum sé ekki til.“ Spurður um þetta segir Þórarinn: „Þegar henni var sagt að það væru 700 manns á biðlista sagði hún að þetta væri ekki biðlisti vegna þess að hann væri ekki búinn til eftir hennar höfði. En biðlistinn er raunveruleiki,“ segir Þórarinn. „Hún vill ekki taka mark á biðlistanum og vill ekki bregðast við upplýsingum sem liggja fyrir. Það er að sinna ekki aðkallandi vandamáli og þegar ráðherrar gera það þá eiga þeir að segja af sér.“
Þórarinn fullyrðir að 33% af þeim sem deyja á Íslandi í dag og eru undir 64 ára aldri séu fólk sem hefur greinst með áfengis- og vímuefnasjúkdóminn. „Og ef þeir eru allir á biðlista og þú ert heilbrigðisráðherra með það meginmarkið að koma í veg fyrir að fólk deyi ótímabært, hvað gerirðu þá?“
SÁÁ stendur fyrir opnum fundi um málið í SÁÁ-húsinu, Efstaleiti 7, í kvöld kl. 19.30.
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild hér að neðan.
Ísland vaknar er á dagskrá alla virka morgna frá kl. 6.45 til kl. 9.00 á K100 og á rás 9 hjá Sjónvarpi Símans.
Ísland vaknar 06:00 - 09:00 (20.2.2019) — 02:58:37 | |
Lego Movie 2 og Umbrella Academy | Ragnar Eyþórsson, Bíógagnrýni (19.2.2019) — 00:08:39 | |
Nýtt Skattþrep; af blaðamannafundi | Gunnlaugur Snær Ólafsson, blaðamaður (19.2.2019) — 00:03:54 | |
Michelin á Íslandi og Norðurlöndunum | Ylfa Helgadóttir og Ólafur Örn Ólafsson (19.2.2019) — 00:14:31 |