Hafðu samráð við nýja makann

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi hjá Stjúptenglsum ræddi flókin fjölskyldumynstur í Ísland vaknar í morgun en það verður alltaf algengara og algengara að börn alist upp á tveimur heimilum með foreldrum og stjúpforeldrum. Þessu geta fylgt ýmis vandamál og Valgerður sérhæfir sig í að hjálpa fólki í þessum aðstæðum. 

„Þetta er orðið mjög viðtekið og jafnvel algengara en hin venjulega kjarnafjölskylda,“ segir Valgerður en bætir við að ekki séu til nógu góð tölfræði yfir það.  „Þessi fjölskylda sést ekki í tölfræðinni og það vantar oft þekkingu. Fólk veit oft ekki sitt hlutverk sem stjúpforeldrar þannig að það verður svolítið hökt í hlutunum. Þeir upplifa sig oft utangarðs og útundan og stóra verkefni stjúpfjölskyldna er að skapa þessa tilfinningu að tilheyra, bæði inni á heimilinu og líka úti í samfélaginu.“

Valgerður segir að klassíska vandamálið sé samskipti við fyrrverandi maka. „Það er eitthvað sem verður til mjög snemma, það er búið að búa til ákveðið mynstur en svo þegar nýr maki kemur til sögunnar er spurningin hvar á að koma honum fyrir. Ef maður gæti kennt fólki eitt þá væri það þetta: Gerðu ráð fyrir því að þú þurfir að hafa samráð við nýja makann,“ segir Valgerður og bendir á að það skapi oft gremju þegar nýi maki upplifi sig ekki fá að taka þátt í ákvörðunum sem varða börnin og heimilið.

Valgerður segir að fólk þurfi að undirbúa sig. „Þegar við kaupum okkur hund þá finnst okkur sjálfsagt að fara á námskeið, en í þessum málum þá á þetta bara að vera meðfætt.  En stjúptengsl eru ekki meðfædd, þetta eru tengsl sem þarf að búa til.“

Þú getur horft og hlustað á viðtalið hér að neðan.

Ísland vaknar er á dagskrá alla virka daga frá kl. 6.45 til kl. 9.00 á K100 og á rás 9

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist