Köld böð betri en lyf

Lea Marie Galgana, nýkrýndur Íslandsmeistari í ísbaði, var á línunni í Ísland vaknar í morgun en hún var í heilar 42 mínútur í ísbaði á Íslandsmótinu sem haldið var í Grindavík fyrir nokkru.

„Mig langaði bara að prófa að sitja í svona klakabaði,“ segir Lea Marie sem hóf að stunda köld böð í febrúar á þessu ári.  Hún var á spítala um áramótin vegna vefjagigtar sem hún hefur þjáðst af í fjögur ár en fannst engin lyf ná að slá á verkina og ákvað því að prófa köld böð.  „Það er búið að vera erfitt fyrir mig að labba og ég gat ekkert setið, þannig að ég ákvað að prófa þetta sem verkjastillingu og í rauninni hefur þetta virkað miklu betur fyrir mig en nokkurt annað lyf.“

„Ég var farinn að skjálfa, en það er allt í lagi ef þér líður ekki illa.  Og ég notaði öndunaræfingar sem hjálpuðu til,“ segir Lea Marie aðspurð um hvernig henni hafi liðið þegar hún var búin að vera lengi í ísbaðinu.  Hún segist alveg hafa getað verið lengur en hún var í baðinu.  „Ég vissi að ég var búin að slá metið, við vorum öll farin að skellihlæja þannig að ég fór bara upp úr.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild hér að neðan.

Ísland vaknar er á dagskrá alla virka daga frá kl. 6.45-9.00 á K100 og á rás 9 á Sjónvarpi Símans.

mbl.is