Stór dagur fyrir Landspítalann

Ómar Óskarsson

Það fór kannski ekki mikið fyrir auglýsingu á blaðsíðu 73 í Morgunblaðinu í dag. Hún er engu að síður býsna merkileg enda er þar verið að óska eftir tilboðum í miklar framkvæmdir við nýja Landspílann við Hringbraut. 

Í auglýsingunni er óskað eftir tilboðum í upprifi á götum, göngustígum, bílastæðum og fleiru, göng undir Snorrabraut, alla jarðvinnu við meðferðarkjarna, gerð bráðabirgðabílastæða og margt fleira. Tilboðin verða opnuð 6. júní.

„Það er búið að bíða eftir þessum áfanga í langan tíma. Þrátt fyrir að þessi framkvæmd hafi byrjað þegar við fórum að hanna. En þegar byrjað er að grafa fyrir stærsta húsinu, sem er meðferðarkjarninn, þá finnst fólki þetta vera byrja. Þannig að þetta er stór dagur,“ segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri LSPH. 

Það hefur ekki farið framhjá neinum að ekki eru allir eitt sáttir við að spítalinn skuli rísa við Hringbraut. Miðflokkurinn hefur til dæmis sagst vilja hafa spítalann við Keldur og Vífilstaðir hafa líka verið nefndir. Útboð á þessum framkvæmdum ættu að vera skýr skilaboð um að Landspítalinn verði við Hringbraut.

„Það hafa átta ríkisstjórnir fjallað um málið og hátt í fjögur hundruð þingmenn og aldrei hafa verið greidd atkvæði gegn því,“ segir Gunnar. Hann segir að vissulega megi búast við miklu raski, enda mikil framkvæmd hér á ferð. Verkefnið sé ekki óumdeilt, en sjúklingar séu búnir að bíða nógu lengi eftir nýja spítalanum.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Gunnar hér og svo er hægt að hlusta á allan þáttinn og fylgjast með í beinni útsendingu á K100.is 

mbl.is

#taktubetrimyndir