Mikið kynjamisrétti í fótboltanum

Kynjamisrétti er algert í umgjörð fótboltaliða í efstu deild á Íslandi samkvæmt rannsókn sem Margrét Björg Ástvaldsdóttir gerði og skrifaði BA-ritgerð um í félagsfræði við Háskóla Íslands. Margrét Björg og Guðni Bergsson, formaður KSÍ voru viðmælendur í Ísland vaknar á K100 í morgun þar sem farið var yfir niðurstöður Margrétar og hver stefna KSÍ væri í málinu.

„Ég tók viðtöl við tuttugu fyrirliða, bæði karla- og kvennamegin og það sem kom í ljós var að það var mikil mismunun í öllum þáttum sem ég skoðaði,“ segir Margrét og bendir á sem dæmi að kvennalið fái ekki aðgang að liðstjóra og sjúkraþjálfara eins og karlaliðin og að á árlegum styrktarkvöldum liðanna fái karlarnir 70% af hagnaðinum en konurnar aðeins 30%.

Margrét skrifaði grein um daginn þar sem hún segir: „Karlarnir æfa alltaf á aðalvellinum á meðan kvennaliðið þarf að sætta sig við æfingavöllinn til að geta æft á sómasamlegum tíma. Jafnvel degi fyrir leik, þegar var að jafnaði búið að lofa kvennaliðinu aðalvellinum, þurftu þær samt að víkja ef karlarnir vildu nýta sér völlinn.“

„Að mínu mati þarf KSÍ að bregðast við,“ segir Margrét en hún hefur sent KSÍ bréf um málið. En hvað er hægt að gera? „Ég legg til að það verði búið til ákveðið próf fyrir félögin, þar sem þau geta merkt við hvað þau eru að bjóða körlunum og hvað konunum. Þá er hægt að skoða málið,“ segir Margrét og bendir á að það sé t.d. ólöglegt að borga körlum meiri laun en konum fyrir að spila fótbolta. 

Guðni Bergsson formaður KSÍ telur að þessi mál séu að breytast í rétta átt. „Það eru vissulega atriði þarna sem við, sem hreyfing, viljum laga. Við viljum að jafnréttis sé gætt allsstaðar og sérstaklega í þessum grundvallaratriðum,“ segir Guðni og á þá við aðstöðumálin. „Við erum auðvitað með jafnréttisáætlun, þar sem segir að aðildarfélögin eigi að gæta jafnræðis í hvívetna og ég held að það sé verið að fylgja því eftir í barna- og unglingastarfi, en miðað við þessa umfjöllun þá virðist vera pottur brotinn hér og þar og það er eitthvað sem við þurfum að laga og reyna að gera betur,“ segir Guðni.

„Tekjurnar eru mikið mun meiri í kringum karlaboltann, það er kannski fjórföld aðsókn á karladeildina á við kvennadeildina og þar eru meiri sjónvarpstekjur. Það er einn hluti af þessu, karlaboltinn hefur meiri tekjur og er vinsælli og fyrir vikið er meiri peningur þar,“ segir Guðni og bætir við að KSÍ hafi nýverið jafnað styrkjabónusinn fyrir árangur í riðlakeppnum og reyni að hafa aðbúnaðinn eins hjá konum og körlum. „Og svo hvetjum við félögin til umhugsunar um þetta. Við reynum að gera það sem við getum til að passa upp á að aðildarfélögin gæti jafnréttis.“

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Margréti Björgu og Guðna. 

Ísland vaknar er á dagskrá alla virka daga frá kl. 6.45 til 9.00 á K100 og á rás 9 hjá Sjónvarpi Símans.mbl.is

#taktubetrimyndir