Heimir Hallgrímsson fer 10 km í hjólastól

Gunnar Karl Haraldsson ætlar að hlaupa 10 km í hjólastól …
Gunnar Karl Haraldsson ætlar að hlaupa 10 km í hjólastól ásamt Heimi Hallgrímssyni og fleirum. K100

„Heimir vissi ekki að hann ætti að fara vegalengdina í hjólastól,“ segir Gunnar Karl Haraldsson á léttum nótum í samtali við Magasínið á K100 er hann rifjar upp aðdraganda þess að hann ásamt fleiri góðum félögum úr Vestmannaeyjum taka þátt í 10 kílómetra hlaupi Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka um komandi helgi í hjólastólum.

Dragbítar með skýr markmið

Gunnar segir hugmyndina hafa komið upp í fyrra þegar hann fór með Kjartani Vídó vini sínum sömu vegalend í hlaupinu til styrktar Reykjadal. Hann segir það hafa gengið vonum framar og þá hafi þeir velt því fyrir sér hvernig þeir gætu gert enn meira til að þetta yrði skemmtilegra og að Reykjadalur fengi meiri umfjöllun. Þannig fengu þeir til liðs við sig félaga úr Eyjum, þá Heimi Hallgríms og Sigurjón Lýðsson. 

Hann segir að Heimir hafi strax samþykkt að hlaupa 10 kílómetrana en vegna anna með landsliðinu hafi hann ekki komist á undirbúningsfundina þar sem ákveðið var að þetta yrði farið í hjólastólum í staðinn. Hann lét þó til leiðast. 

"Við ákváðum að hafa smá tvist í þessu og fara allir á hjólastól. Svo bættist Stefán Steindórsson við en hann ætlar að hlaupa með okkur, þannig að ef hinir lenda í einhverjum erfiðleikum þá er hægt að ýta þeim restina af leiðinni," segir Gunnar sem fullyrðir í gamansömun tón að einhverjir munu lenda í erfiðleikum. 

Aðspurður um æfingar, tíma og markmið segist hann hafa náð 1:21:48 í fyrra en að hann vilji gjarnan ná undir tveimur tímum í ár. Undanfarna daga hafa þeir hist til að æfa og er ljóst að félagar Gunnars Karls komast ekki eins hratt, en hann gerir þó lítið úr því að drengirnir verði dragbítar í hlaupinu. „Það skiptir bara engu máli svo lengi sem við erum að styðja gott málefni," segir Gunnar Karl sem staðfestir þó að hann sé hraðastur í liðinu enda í bestu þjálfuninni er kemur að því að hlaupa í hjólastól. 

Loksins á meðal jafningja

Gunnari Karli þykir mjög vænt um Reykjadal og með þátttöku sinni vill hann gefa tilbaka. "Ég fór þarna sjálfur á árunum 2004 til 2015 og ég á engin orð yfir það hversu mikil áhrif þessi staður hefur haft á mig í gegnum tíðina. Þarna kem ég níu að verða tíu ára gamall og ég hafði aldrei upplifað mig jafnan einhverjum öðrum. Ég var alltaf eini fatlaði, eini sem var útundan út frá fötlun. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þá en það er alveg skiljanlegt að 10 ára krakkar geri sér ekki grein fyrir að ég hafi verið hreyfihamlaður. Börn eru bara ekki að pæla í því, sem er alveg skiljanlegt. En þarna kom ég á stað þar sem það voru allir jafnir. Þú gast gert það sem þú vildir gera og það er ekki neitt vesen. Vandamál voru bara leyst og þetta er bara frábær staður. Ég á engin orð til að lýsa því hvað þetta hefur gefið mér," segir hann.

Þeir sem vilja heita á Gunnar Karl og félaga geta nálgast upplýsingarnar á Hlaupastyrks síðunni eða smella hér. 

Hér má lesa um staðinn sem rekinn er af Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og er það sumar- og helgardvalarstað fyrir fötluð börn og ungmenni.mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir